Innviðir öflugrar starfsemi

Hornsteinar listasafna:
myndlist, mannauður, metnaður

Yfirlitsmynd sem sýnir markmið samræmdrar safnastefnu sem stólpa og grunninn sem hún byggir á. Markmiðin eru sjö: faglegt starf, samfélagslegt hlutverk, menntunarhlutverk, sýnileiki, kynning og miðlun, þróun, rannsóknir og sérstaða og samstarf. Markmiðin og stefnan byggja á eftirfarandi þremur þáttum: myndlist, mannauður og metnaður.

Listasöfn byggja starfsemi sína á margbreytilegri myndlistarsköpun listamanna. Safneignir listasafna og sýningastarf þeirra einkennist af fjölbreytni og grósku sem endurspeglar íslenskt menningarlíf. Með því að auka skilning á mikilvægi myndlistar á listasafn í samtali við samfélagið með ólíkum hætti á ólíkum tímum. Þetta samtal tryggir stöðugleika en stuðlar jafnframt að þróun á hverjum tíma.

Mannauðurinn í listasöfnum býr yfir einstakri þekkingu á myndlist og starfsemi listasafna. Þekking eykst með hverju verkefni og stöðug þróun í miðlun, ásamt áskorunum í starfi safna, skapar hvetjandi umhverfi á þessum vinnustöðum sem nauðsynlegt er að hlúa að. Mikilvægt er að styðja við, auka og efla hæfni mannauðs með símenntun og nýta fjölbreytt tækifæri til starfsþróunar. Ör þróun listasafna og breytt umhverfi og samfélag hefur skapað þörf fyrir ný störf innan listasafna á allra síðustu árum. Listasöfnin eru og þurfa að vera í sífelldri þróun og því er mikilvægt að stuðla að því að starfsfólkið fái jafnframt tækifæri til að eflast.

Það er litlum sem stórum listasöfnum nauðsynlegt að búa við tryggt rekstrarumhverfi til að sinna grunnþáttum starfseminnar og geta treyst því að eigendur safna, ríki, sveitarfélög eða félagasamtök, búi ávallt yfir þekkingu á starfseminni og hafi til að bera þann metnað að tryggja söfnum sínum fjármuni til grunnþátta í rekstri.

Samræmd safnastefna á sviði myndlistar er fyrsta skrefið til formlegs samstarfsvettvangs listasafna sem Listasafn Íslands leiðir sem höfuðsafn. Út frá þessari stefnu verða unnar áhersluáætlanir til að ná þeim árangri sem stefnan boðar.

Samræmd safnastefna á sviði myndlistar

Sjö markmið

Markmið 1: Faglegt starf

Listasöfn varðveita mikilvægan hluta menningararfsins. Þarft er að styðja við faglegt starf á öllum sviðum starfsemi listasafna. Sérstaklega þarf að huga að því að grunnþættir safnastarfs, skv. lögum, krefjast ólíkrar sérhæfingar. Varðveisla, skráning og miðlun eru stórir verkþættir sem byggja á sérmenntun og oft ólíkum störfum. Það er í þágu íslenskrar menningar að efla faglega starfsemi. Fylgja þarf eftir kröfum sem hafa verið gerðar um viðurkenningu safna.

Leiðir að markmiði

1. Auka gæði á öllum starfssviðum listasafna

Á listasöfnum er gerð krafa um faglegt starf og markmiðið er að auka sífellt gæði starfseminnar á öllum sviðum. Ný störf sem krefjast nýrrar sérþekkingar sem styður við grunnstörfin, eru söfnum nauðsynleg í dag. Þau stuðla að styrkari ímynd listasafna m.a. með því að auka miðlun og fræðslu í gegnum samfélagsmiðla, viðburðastjórnun og viðleitni til að skapa nýja markhópa gesta sem hafa ríka snertifleti við söfn.

2. Söfnunarstefna

Listasöfn setja sér skýra söfnunarstefnu sem þau starfa eftir og senda höfuðsafni á fjögurra ára fresti eins og lög gera ráð fyrir. Söfnunarstefna styður við ákvarðanir og stuðlar að gagnsæi við uppbyggingu og meðhöndlun safnkosts.

3. Uppfylla kröfur varðandi skráningar

Lykilþættir starfsemi listasafna snúa að skráningu. Skráning verka í viðurkennda safnmunaskrá er grundvöllur þess að bera ábyrgð á og halda utan um safneign. Efla þarf og opna stafrænt aðgengi að safnkosti fyrir alla. Þannig er mikilvægt að styrkja frekari stafræna þróun og mæta kröfum varðandi faglega skráningu listaverka og miðlun upplýsinga til samfélagsins.

4. Uppfylla kröfur hvað varðar varðveislu

Mikilvægt er að tryggja skilyrði til varðveislu með faglegri þekkingu. Fagleg þekking á varðveislu þarf að vera til staðar; réttar geymsluaðstæður, rétt meðhöndlun, öryggismál og viðbragðsáætlanir sem uppfylla viðmiðunarkröfur safnaráðs og kröfur um faglega meðhöndlun listaverka. Varðveisla samtímamyndlistar er krefjandi verkefni sem mörg listasöfn kljást við.

5. Tryggja húsnæði sem mætir þörfum listasafna

Taka þarf tillit til sérstöðu listasafna hvað varðar þarfir til húsnæðis, t.d. vegna sýninga, viðburða og varðveislurýma. Húsnæði listasafns verður að uppfylla allar nauðsynlegar kröfur, svo sem um öryggi og aðbúnað við hæfi.

Markmið 2: Samfélagslegt hlutverk

Listasöfn mæta og fylgja þörfum samfélagsins. Rækta þarf góð tengsl við samfélagið, ekki síst nærsamfélagið, og stuðla að eflingu þess. Listasafn býr yfir hreyfiafli sem stuðlar að þróun, skapar umræðu um málefni líðandi stundar og tekur virkan þátt í samfélaginu. Með samtímarýni speglar listasafn samfélagið. Í nútímasamfélagi og samkeppni um tíma og áhuga gesta skiptir aukið og bætt aðgengi að myndlist höfuðmáli. Listasöfn mæta og fylgja þörfum samfélagsins.

Rækta þarf góð tengsl við samfélagið, ekki síst nærsamfélagið, og stuðla að eflingu þess. Listasafn býr yfir hreyfiafli sem stuðlar að þróun, skapar umræðu um málefni líðandi stundar og tekur virkan þátt í samfélaginu. Með samtímarýni speglar listasafn samfélagið. Í nútímasamfélagi og samkeppni um tíma og áhuga gesta skiptir aukið og bætt aðgengi að myndlist höfuðmáli.

Leiðir að markmiði

1. Bæta aðgengi að safnkosti og sýningum

Mikilvægt er að auka aðgengi að myndlist og jafnframt stuðla að auknum skilningi og innsýn almennings í myndlist og draga úr huglægum hindrunum. Listasöfn eru fyrir alla, án aðgreiningar, staðir til að njóta, upplifa og dvelja á. Listasöfn hafa þarfir gesta að leiðarljósi, þau stuðla að sköpun og þátttöku í menningarlífi.

2. Taka þátt í samfélagslegri rýni, hafa áhrif og vera samfélagslegt hreyfiafl

Listasöfn eru vettvangur samfélagslegrar umræðu og rýni. Listasöfn vekja athygli á samfélagslega mikilvægum málefnum og bregðast við umræðum líðandi stundar. Listasöfn bjóða upp á virkt samtal við gesti og samfélag í gegnum myndlist.

Listasöfn vekja athygli á og fjalla um málefni sem tengjast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni, umhverfismál, loftslagsmál og jafnrétti.

3. Stunda virkt samtal við samfélagið

Listasöfn bæta og auðga mannlíf. Listasöfn rækta tengsl við og styrkja samfélagið í heild sem og nærsamfélag sitt með virku samtali og samstarfi sem felst í sýningahaldi, móttöku hópa, viðburðadagskrá og fræðslustarfi fyrir skóla og almenning. Virk samtöl við gesti, t.d. með samfélagsmiðlum og viðburðum, leiðir af sér stöðuga þróun. Listasöfn styðja jafnframt við virka þátttöku fjölmenningarsamfélagsins í starfsemi sinni.

Markmið 3: Menntunarhlutverk

Listasöfn gegna veigamiklu hlutverki í menntun þjóðarinnar sem nauðsynlegt er að skerpa á. Listasöfn eru gluggi að listrænum menningararfi samfélaga og stuðla að aukinni þekkingu og skilningi á honum með miðlun og fræðslu. Listasöfn taka þátt í að uppfylla markmið námskráa á öllum skólastigum. Listasöfn gegna þýðingarmiklu menntunarhlutverki ásamt hefðbundnum menntastofnunum.

Í heimsókn á listasafn felst viðamikil óformleg menntun þar sem persónubundin upplifun og túlkun eflir rökhugsun og þroska einstaklingsins til skoðanamyndunar. Læsi þegna samfélagsins á eigin menningararf er áríðandi til að efla ímynd og styrkja vitund fólks um mikilvægi menningarlífs og sjálfstæðis.

Leiðir að markmiði

1. Stuðla að aukinni þekkingu og skilningi á listrænum menningararfi

Listasöfnin gegna hlutverki í tengslum við miðlun og fræðslu um íslenska og erlenda myndlist og listrænan menningararf þjóðarinnar. Mikilvæg tækifæri felast í auknu aðgengi að safnkosti í gegnum menningarsögulega gagnasafnið Sarp (https://www.sarpur.is/) og nýjum leiðum í stafrænni miðlun og fræðslu sem listasöfn tileinki sér.

2. Leggja áherslu á þátttöku barna og ungmenna í menningarlífi

Listasöfn stuðla að auknu menningarlæsi með því að leggja áherslu á aukna þátttöku barna og ungmenna í starfseminni. Þetta á við innan ramma hefðbundins skólastarfs þar sem skólahópar heimsækja söfn sér að kostnaðarlausu en einnig ber listasöfnum að stuðla að fjölbreyttu menningarlífi barna og ungmenna í frítíma þeirra.

3. Endurskilgreina og þróa samstarf við skóla á öllum skólastigum

Halda skal áfram góðu samstarfi við skóla og þróa nýjar leiðir til fræðslu og miðlunar. Stafrænar leiðir fela í sér fjölbreytt tækifæri til miðlunar og fræðslu sem söfn þurfa að tileinka sér. Aðbúnaður safna þarf að koma til móts við þarfir nemenda.

4. Sinna óformlegri menntun

Menntun og fræðsla er undirliggjandi í öllu starfi listasafna. Allar heimsóknir á listasafn, hvort heldur sem er í raunheiminum eða í hinum stafræna heimi, fela í sér fræðslu og menntun.

Markmið 4: Sýnileiki - kynning - miðlun

Efla þarf sýnileika listasafna með því að undirstrika sérstöðu þeirra meðal safna. Koma þarf starfsemi þeirra betur á framfæri með samtakamætti, nýjum aðferðum og miðlum. Miða verður að því að auka gagnsæi í starfsemi þeirra með því að kynna það sem gerist á bak við tjöldin.

Leiðir að markmiði

1. Efla kynningu á starfsemi listasafna

Listasöfnin eru í harðri samkeppni um gesti þar sem mikið framboð afþreyingar, fræðslu og menningarviðburða er jafnan til staðar. Með samstilltu átaki má gera starfsemi listasafna sýnilegri, draga þau fram sem fýsilegan valkost og auka aðsókn og þátttöku. Það er aðeins hluti starfsemi listasafna sem felst í miðlun og fræðslu, því á bak við tjöldin á sér stað mikið starf sem draga má betur fram og kynna.

2. Stuðla að aukinni umfjöllun um myndlist og gera hana sýnilegri

Aukin umfjöllun um myndlist sýnir að hún er fyrir alla og dregur um leið úr hugsanlegum hindrunum. Nýir miðlar bjóða upp á fjölbreyttar og nýjar leiðir til að vekja athygli á myndlist og vitund um hana.

3. Auka gagnsæi í starfseminni

Gagnsæi í tengslum við innkaup og sýningar listasafna, til dæmis að upplýsingar liggi alltaf fyrir og séu kynntar reglulega, styrkir ímynd listasafna og stuðlar um leið að samtali ólíkra hagsmunaaðila í baklandi listasafna.

Markmið 5: Þróun

Frumkvæði og hugrekki til að taka djarfar ákvarðanir felur í sér leið til þróunar. Ný hugsun og þróun í starfsemi listasafna felur í sér breytingar og nýjar áherslur í starfinu. Tækifæri felast í skapandi afli listarinnar og það er mikilvægt að draga lærdóm af tilraunum. Styðja þarf við og efla nýsköpun í venjubundinni starfsemi listasafna.

Leiðir að markmiði

1. Styðja við og auka gæði á öllum starfssviðum listasafna

Ný hugsun og þróun í starfsemi listasafna felur í sér ýmsar breytingar. Þarfir gesta eru í forgrunni og þar með einnig það hvernig listasöfnin geta mætt þeim. Þetta kallar á ný störf, til dæmis í tengslum við markaðsstarf, ímynd og þjónustu listasafna.

2. Nýsköpun leiðir til þróunar

Nýsköpun er listasöfnum mikilvæg, hún er hluti af venjubundinni starfsemi þeirra og þeim leiðum sem þau fara til að rækja hlutverk sitt. Með nýsköpun er átt við að skapa nýjar leiðir eða lausnir og bæta það sem þegar er til staðar. Með tilkomu fjórðu iðnbyltingarinnar opnast fjöldi nýrra tækifæra fyrir listasöfnin.

3. Kynna og draga lærdóm af tilraunaverkefnum

Nauðsynlegt er að taka saman, fylgjast með, kynna og fjalla um alla þá nýsköpun sem á sér stað á listasöfnum. Þannig má læra af verkefnum og miðla þekkingunni til annarra. Hér gæti sameiginleg þekkingargátt listasafna reynst afar gagnlegt tól.

4. Tölfræði og mælikvarðar

Að hafa marktækan samanburð og tölulegar upplýsingar eflir skilning á starfsemi hvers safns og getur stuðlað að markvissari þróun og áætlanagerð. Líta þarf á slík matstæki sem eðlilegan þátt og hvetjandi.

Markmið 6: Rannsóknir

Efla þarf rannsóknir á myndlist og gæta þess að söfn séu virk í að víkka út hugmyndir um í hverju rannsóknarstarf felst.

Mikil gróska er í þverfaglegum rannsóknum sem eiga erindi við listfræðilegar rannsóknir og rannsóknir á safnastarfi. Auka þarf aðgengi að rannsóknarniðurstöðum.

Leiðir að markmiði

1. Efla rannsóknir á myndlist

Listasöfn stunda vandaðar rannsóknir á íslenskri myndlist í alþjóðlegu samhengi. Listasöfn hafa mismikla burði til að sinna rannsóknum í hefðbundnum akademískum skilningi, en þátttaka minni listasafna felst ekki síst í að veita aðgang að safnkosti og grunnupplýsingum sem hvort tveggja leggur grunn að frekari rannsóknum. Mikilvægt er að styðja við og styrkja tengingar listasafna og háskóla- og fræðasamfélags og stuðla að þeim gagnkvæma ávinningi sem felst í samstarfi.

2. Efla listasöfn sem rannsóknavettvang

Hugmyndir um rannsóknir á myndlist hafa tekið miklum breytingum og eru í sífelldri þróun. Draga þarf fram að listasöfn sinna ýmsum rannsóknum í sinni daglegu starfsemi, til að mynda í tengslum við sýningarverkefni og miðlun safnkosts með ýmsum hætti. Þetta er grundvöllur aukinnar þekkingar innan listasafna.

3. Setja skýr rannsóknarmarkmið

Mikilvægt er að listasöfn setji sér skýr rannsóknarmarkmið jafnt í akademískum sem öðrum rannsóknum og vinni markvisst að þeim og eigi samstarf um miðlun niðurstaða á sameiginlegum vettvangi.

Markmið 7: Sérstaða og samstarf

 

Það felast tækifæri í því að styrkja sérstöðu listasafna og tryggja þannig heildstæða varðveislu listræns menningararfs þjóðarinnar og miðlun á honum. Aukin samvinna og samnýting styrkir og eflir starfsemi listasafna og þær áherslur sem unnið er með á hverjum stað. Listasöfn stuðla að gagnrýnu samtali myndlistar og samfélags með lýðræðislegri umræðu og sífelldri endurskoðun viðtekinna hugmynda út frá málefnum samtímans.

Tækifæri felast í þessu kvika samtali og að listasöfn geti speglað samfélagið í verkefnum sínum, varpað fram spurningum og ólíkum sjónarmiðum, og síðast en ekki síst orðið kveikja að endurmati. Stuðla skal að alþjóðlegu samstarfi, listasöfn þurfa að fylgjast með og þróast í alþjóðlegu samhengi.

Leiðir að markmiði

1. Draga fram og styrkja sérstöðu listasafnaraga fram og styrkja sérstöðu listasafna

Það felur í sér tækifæri í að styrkja og skilgreina sérstöðu listasafna. Með skýrum áherslum á ákveðin viðfangsefni á hverjum stað styrkist hver eining en einnig heildstæð söfnun og miðlun á listrænum menningararfi þjóðarinnar.

2. Efla upplýsingaflæði milli starfsfólks listasafna

Vannýtt tækifæri felast í mikilli uppsafnaðri reynslu og þekkingu innan listasafnanna. Með bættu flæði upplýsinga milli kollega má auka gæði og styrkja faglegt starf.

3. Efla starfsemi með samstarfi 

Með aukinni áherslu á sérstöðu listasafna skapast aukin tækifæri til samvinnu þar sem unnið er þverfaglega og sérkenni og sérstaða einstakra safna fær að njóta sín. Listasöfn eru litlar einingar og samvinna, samnýting mannauðs og jafnvel sameining getur styrkt og eflt starfsemi þeirra. 

4. Stuðla að auknu samstarfi

Aukið samstarf listasafna, annarra safna og aðila sem starfa á sviði menningar eða menntunar er gagnlegt og felur í sér samlegðaráhrif sem gagnast öllum. Aukin samvinna á ákveðnum svæðum getur styrkt starfsemina verulega.

5. Stuðla að alþjóðlegu samstarfi og fylgjast með því sem gerist erlendis

Mikilvægt er að listasöfn fylgist vel með því sem hæst ber í alþjóðlegu samhengi, þróist og miðli straumum og stefnum. Mikil tækifæri felast í alþjóðlegu samstarfi í því samhengi.