Samræmd safnastefna á sviði myndlistar

Samræmd safnastefna á sviði myndlistar

Samræmd safnastefna á sviði myndlistar

Rekstur listasafns er indælt stríð

Það er ánægjulegt að hleypa nú af stokkunum fyrstu samræmdu safnastefnu íslenskra listasafna sem gerð er eftir ákvæðum laga um skyldur Listasafns Íslands sem höfuðsafns á sviði myndlistar. Þegar þetta er skrifað ríkir tími mikilla umhleypinga hjá okkur í söfnunum, rétt eins og víðast hvar, vegna kórónuveirufaraldursins sem hefur haft áhrif á daglega starfsemi og sett bæði verkefni og rekstur í uppnám í flestum söfnum. Vinnan við stefnuna var komin vel á veg þegar faraldurinn hófst og starfi rýnihópa og úrvinnslu kannana var lokið og búið að skilgreina kjarnann sem stefnan byggir á. Markmið stefnunnar munu standast þetta álag sem kórónuveirufaraldurinn er, þær áherslur sem finna má undir hverju markmiði lýsa okkur fram veginn til að efla hið fjölbreytta og metnaðarfulla starf sem fram fer í íslenskum listasöfnum.

Á síðustu árum hefur umhverfi safnareksturs tekið miklum framförum á Íslandi. Annars vegar vegna markvissra breytinga með tilkomu safnaráðs og í kjölfar lagabreytinga um viðurkenningu safna sem felur í sér sérstaka áherslu á aukið eftirlit með tilkomu styrkjakerfis. Þessi þróun hefur orðið söfnum mikil örvun og mörg góð og þörf verkefni verið unnin fyrir tilstuðlan styrkja úr Safnasjóði. Hins vegar hefur stóraukning í komum ferðamanna til Íslands á liðnum áratug skapað óvæntan hvata í söfnum með fjölgun gesta. Meiri aðsókn hefur aukið tekjur margra safna vegna aðgangseyris og vörusölu sem hefur haft töluverða þýðingu. Kórónuveirufaraldurinn sem nú geisar hefur hins vegar sýnt söfnum, sem að miklu leyti reiða sig á markaðsdrifna tekjustofna, hversu viðkvæm sú starfsemi er, sem grundvallast að verulegu leyti á aðsókn gesta.

Eitt mikilvægasta verkefnið sem söfn standa frammi fyrir hér á landi nú á tímum er að þau skipti Íslendinga máli. Þar standa listasöfnin almennt ágætlega að vígi, því þau hafa lengi notið ríkrar endurgjafar frá sínu nærsamfélagi, einkum því baklandi sem myndlistarmenn eru íslenskum listasöfnum og frá þeim unnendum myndlistar sem heimsækja söfnin reglulega. Listasöfnum á Íslandi hefur vaxið ásmegin á síðustu áratugum. Þeim hefur fjölgað og þau hafa náð að festa sig í sessi í mörgum bæjarfélögum með áberandi hætti. Í verkefnum listasafna sjáum við þá miklu orku sem þau búa yfir og hversu kvik þau jafnan eru sem spegill samtímans í verkefnum sínum. Fjölbreyttar sýningar og sú þétta viðburða- og fræðsludagskrá sem einkennir starfsemi velflestra listasafna yfir árið, ásamt margs konar umsýslu með safneignina, afmörkuðum rannsóknarverkefnum sem mörg þeirra standa að með aðdáunarverðum hætti, glæsilegum og metnaðarfullum útgáfum listaverkabóka, færa okkur heim sanninn um að listasöfn leggja áhrifarík lóð á vogarskálar íslensks menningarlífs og eru mikilvægir þátttakendur í máttugu gangverki myndlistarlífs hér á landi.

Listasafn Íslands lét gera könnun í samstarfi við Gallup í janúar og febrúar 2020 og snerist hún aðallega um Listasafn Íslands og innleiðingu á nýju merki safnsins. Íslendingar voru meðal annars spurðir um heimsóknir sínar í íslensk söfn. Sjá má myndræna útfærslu á niðurstöðunum hér neðar.

Tæplega helmingur þeirra, sem könnunin náði til, heimsækir söfn að einhverju marki yfir árið. Ánægjulegt var að sjá að hlutfall kynjanna er nokkuð jafnt, konur þó ívið fleiri sem kemur ekki á óvart miðað við þá vitneskju sem við höfum haft um árabil. Slíkar kannanir hafa almennt ekki verið gerðar fyrir íslensk söfn með því úrtaki sem hér um ræðir. Því miður hefur vantað metnaðarfulla tölfræðivinnu í okkar geira á síðustu áratugum sem stjórnvöld hafa nú ákveðið að taka fastari tökum með sérstakri áherslu í málaflokki menningarstofnana samkvæmt fjármálaáaætlun 2021–2025. Það er fagnaðarefni og lýsir jákvæðri þróun svo viðmið geti skapast og mælikvarðar fest sig í sessi. Þannig verður hægt að vinna með markvissum hætti að því að efla starfsemi safna og skapa þá umgjörð sem þau þurfa á hverjum tíma.

Það má teljast heppni að Listasafn Íslands lét gera þessa könnun rétt áður en kórónuveirufaraldurinn kokgleypti menningarlíf landsins. Markmiðið sem við stöndum frammi fyrir er að gera gangskör að því á næstu misserum og árum að fá fleiri Íslendinga í söfnin. Að skilgreina markhópa fyrir verkefni okkar og vinna betur að markaðs- og kynningarmálum. Í niðurstöðum könnunarinnar var eftirtektarvert hversu margir sögðu að þeir myndu mjög líklega heimsækja söfnin ef markaðssetning þeirra væri meira áberandi. Það er verðugt verkefni og í vinnu rýnihópanna og í spurningalistum, sem sendir voru út í tengslum við gerð þessarar stefnu, kom greinilega fram að Listasafn Íslands þarf að skerpa á hlutverki sínu sem höfuðsafn og hafa burði til að vera í þjónandi forystu fyrir viðurkennd listasöfn.

Listasöfnin eiga stóran þátt í því að knýja myndlistarlífið í landinu áfram og þau geta með starfsemi sinni miðlað ríkulegu efni til fjölbreyttra rannsókna í háskóla- og fræðasamfélaginu. Sjálf þurfa þau að hafa bolmagn til að standa að eigin rannsóknum, en hinu má ekki gleyma að í skapandi starfsemi sinni þarfnast þau stundum hvatningar og skilnings á því faglega starfi sem þau rækja. Fræðasamfélagið ætti að eiga ríkara frumkvæði að því að byggja rannsóknarbrýr yfir til safnanna og horfa til allra þeirra tækifæra sem söfnin geta veitt og með því skapað uppbyggilega samvinnu.

Listasöfn eru stór hluti af íslensku menningarlífi og ekki má horfa framhjá þeim þegar talað er um menningarstofnanir og menningarneyslu  því staðreyndin er sú að í þeim efnum gegna listasöfnin fjölbreyttu hlutverki.

Harpa Þórsdóttir safnstjóri Listasafns Íslands

Yfirskrift þessa inngangs er fengin að láni frá Guðlaugi Rósinkranz (1903-1977) en ævisaga hans, eftir 23 ár sem Þjóðleikhússtjóri bar nafnið „Allt var það indælt stríð“.

Ágúst 2022

Listasafn Íslands lét kanna að nýju safnheimsóknir Íslendinga og má sjá töflurnar frá 2020 og ’22 hér fyrir neðan.

Ánægjulegt er að sjá að í öllum aldurshópum, nema hjá elstu gestunum, kemur fram marktæk lækkun á svarinu ,,Sjaldnar” í flokkunum. Ánægjulegt er að sjá að yngsta aldursbilið sem könnunin náði til, 18-29 ára hefur stóraukið komur oftsinnis yfir árið í söfn (5-11 x á ári) en almennt má segja að nú, tveimur árum eftir að Covid hófst, hafi Íslendingar aukið heimsóknir sínar í söfnin, ef frá er talinn elsti aldurshópurinn 70+, sem líklega má tengja við afleiðingar heimsfaraldursins.

Listasafn Íslands

Hversu oft ferð þú á söfn?

Spurning og niðurstöður úr Gallupkönnun fyrir Listasafn Íslands, netkönnun febrúar 2022

(1580 manns af öllu landinu)

18-29 ára

  • 1 x eða oftar í mánuði 1% 1%
  • 5 – 11 x á ári 20% 20%
  • 2 – 4 x á ári 29% 29%
  • Sjaldnar 34% 34%
  • Aldrei 16% 16%

30-39 ára

  • 1 x eða oftar í mánuði 5% 5%
  • 5 – 11 x á ári 15% 15%
  • 2 – 4 x á ári 24% 24%
  • Sjaldnar 32% 32%
  • Aldrei 23% 23%

40-49 ára

  • 1 x eða oftar í mánuði 7% 7%
  • 5 – 11 x á ári 15% 15%
  • 2 – 4 x á ári 37% 37%
  • Sjaldnar 29% 29%
  • Aldrei 12% 12%

50-59 ára

  • 1 x eða oftar í mánuði 3% 3%
  • 5 – 11 x á ári 17% 17%
  • 2 – 4 x á ári 34% 34%
  • Sjaldnar 35% 35%
  • Aldrei 11% 11%

60-69 ára

  • 1 x eða oftar í mánuði 6% 6%
  • 5 – 11 x á ári 16% 16%
  • 2 – 4 x á ári 37% 37%
  • Sjaldnar 35% 35%
  • Aldrei 5% 5%

70 ára +

  • 1 x eða oftar í mánuði 7% 7%
  • 5 – 11 x á ári 18% 18%
  • 2 – 4 x á ári 31% 31%
  • Sjaldnar 32% 32%
  • Aldrei 12% 12%

Hversu oft ferð þú á söfn?

Spurning og niðurstöður úr Gallupkönnun fyrir Listasafn Íslands, netkönnun jan.-feb. 2020

(1580 manns af öllu landinu)

18-29 ára

  • 1 x eða oftar í mánuði 8% 8%
  • 5 – 11 x á ári 4% 4%
  • 2 – 4 x á ári 28% 28%
  • Sjaldnar 40% 40%
  • Aldrei 20% 20%

30-39 ára

  • 1 x eða oftar í mánuði 2% 2%
  • 5 – 11 x á ári 10% 10%
  • 2 – 4 x á ári 26% 26%
  • Sjaldnar 46% 46%
  • Aldrei 16% 16%

40-49 ára

  • 1 x eða oftar í mánuði 5% 5%
  • 5 – 11 x á ári 6% 6%
  • 2 – 4 x á ári 33% 33%
  • Sjaldnar 48% 48%
  • Aldrei 8% 8%

50-59 ára

  • 1 x eða oftar í mánuði 5% 5%
  • 5 – 11 x á ári 8% 8%
  • 2 – 4 x á ári 28% 28%
  • Sjaldnar 47% 47%
  • Aldrei 13% 13%

60-69 ára

  • 1 x eða oftar í mánuði 5% 5%
  • 5 – 11 x á ári 12% 12%
  • 2 – 4 x á ári 29% 29%
  • Sjaldnar 47% 47%
  • Aldrei 8% 8%

70 ára +

  • 1 x eða oftar í mánuði 15% 15%
  • 5 – 11 x á ári 13% 13%
  • 2 – 4 x á ári 33% 33%
  • Sjaldnar 24% 24%
  • Aldrei 14% 14%

Hlutverk stefnunnar

 Samkvæmt safnalögum nr. 141/2011 og myndlistarlögum nr. 64/2012 skal Listasafn Íslands, höfuðsafn á sviði myndlistar, veita öðrum listasöfnum ráðgjöf, stuðla að samvinnu listasafna og vinna að samræmdri safnastefnu á sviði myndlistar.

Tilgangur og hlutverk stefnunnar er að skerpa á sameiginlegri sýn listasafna þannig að stjórnendur þeirra stefni allir í sömu átt. Listasöfn á Íslandi byggja á sambærilegum grunni. Þau eiga það sameiginlegt að eiga og varðveita eiga skráða safneign sem er sýnd að einhverju leyti og þau leggja öll áherslu á að halda reglulega nýjar sýningar. Sérstaða listasafna liggur helst í fjölda sérsýninga á hverju ári, ólíkri sérhæfingu mannauðs og ýmiss konar sérstöðu varðandi söfnunarstefnu eða safnkost. Listasöfn eru því fjölbreytt og í því felast tækifæri til samvinnu, samnýtingar og öflugs flæðis upplýsinga og þekkingarmiðlunar. Safnastefna á sviði myndlistar skapar jafnframt grundvöll til meira samstarfs, en í því felst mikill styrkur fyrir listasöfnin og verkefni þeirra. Með því að horfa til samræmdrar safnastefnu á sviði myndlistar geta einstök listasöfn sett sér skýrari stefnu í eigin starfi, sérstaða hvers listasafns verður augljósari og verkaskipting getur orðið skýrari.

Það er einnig tilgangur stefnunnar að efla vöxt myndlistar og hlut hennar í menningararfinum, enda eru listasöfn vettvangur varðveislu og fjölbreyttrar vinnu við myndlistararfinn og varpa með henni m.a. ljósi á listasöguna, þróun hennar og tengsl myndlistar við umhverfið.

Undanfarin ár hefur orðið ör þróun í starfsumhverfi listasafna sem miðar að því að styrkja faglegt starf og treysta undirstöðuþættina í söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknum og miðlun. Þar skiptir viðurkenning safna miklu máli og skilgreining lágmarksviðmiða sem eru hvatar til umbóta og þróunar en veita jafnframt faglegt aðhald í starfinu.

Samræmdri safnastefnu á sviði myndlistar er ætlað að vera leiðarvísir fram á veginn fyrir bæði starfsfólk og eigendur listasafna á landinu og stuðningur við það yfirgripsmikla starf sem fram fer innan veggja þeirra.

.

Framkvæmdin

 Á haustmánuðum 2019 hófst vinna við mótun samræmdrar safnastefnu á sviði myndlistar og framtíðarsýnar fyrir viðurkennd listasöfn og listasöfn í eigu ríkisins. Verkefnið var unnið í samvinnu við fyrirtækið Sjá ehf.

Samræmdri safnastefnu á sviði myndlistar er ætlað að styðja við starfsemi listasafna á Íslandi og stuðla að sameiginlegri framtíðarsýn. Listasafn Íslands, sem höfuðsafn, ber ábyrgð á því að unnið sé að þessari sameiginlegu stefnu og fær hagsmunaaðila að borðinu.

Myndaður var stýrihópur sem hélt utan um verkefnið og mótaði ramma utan um það. Hópurinn skilgreindi markmið stefnunnar, setti saman verkáætlun og leiddi verkefnið. Stýrihópinn skipuðu Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands, Dagný Heiðdal, varðveislu- og skráningarstjóri í Listasafni Íslands og Þóra Björk Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri safnaráðs.

Stýrihópurinn hittist reglulega á vinnufundum en grunnur stefnunnar felst í ítarlegu samráði við helstu hagsmunaaðila. Haldnir voru rýnifundir með fulltrúum viðurkenndra listasafna og listasafna í ríkiseigu en fulltrúar Gerðarsafns, Hafnarborgar, Hönnunarsafns Íslands, Listasafns ASÍ, Listasafns Árnesinga, Listasafns Einars Jónssonar, Listasafns HÍ, Listasafns Reykjanesbæjar, Listasafns Reykjavíkur, Listasafnsins á Akureyri og Nýlistasafnsins tóku þátt í rýnifundunum og Safnasafnið sendi gögn en tók ekki þátt í fundum.

Eins var farið í viðamikla netkönnun meðal ýmissa hagsmunahópa og leitað eftir þeirra innleggi í vinnuna. Netkönnunin var send til ýmissa félaga sem tengjast listasöfnum og myndlist (s.s. ICOM, FÍSOS, Listfræðafélagi Íslands, SÍM, Félagi íslenskra myndmenntakennara) og voru fulltrúar félaganna beðnir um að áframsenda til sinna félagsmanna. Könnunin var send til kennara og nemenda í safnafræði og listfræði, hún var einnig send til fulltrúa í safnaráði og einstaklinga sem starfa við menningarstjórnsýslu hér á landi. Að auki var könnunin send til hópa í ferðaþjónustu, Félags leiðsögumanna og kennara í leiðsögunámi.

Enn fremur var horft til innri vinnu og gagna, lagasetninga sem og sambærilegra stefna hjá öðrum menningarstofnunum, innlendum sem erlendum. Í kjölfarið fór fram úrvinnsla og greining á því sem fram kom og er samræmd safnastefna á sviði myndlistar niðurstaða þessarar vinnu. Eiga allir sem að henni komu þakkir skildar fyrir sitt framlag.

Stefnan var að lokum send safnstjórum listasafna til umsagnar og gerðu þeir ýmsar góðar athugasemdir. Allar athugasemdir voru teknar til skoðunar og rötuðu margar þeirra í einhverri mynd inn í stefnuna.

Leiðarljós

 Listasöfn bera ábyrgð á verndun og varðveislu myndlistararfs þjóðarinnar og þau styðja við og efla gildi myndlistar í landinu.

Listasöfn gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki, stuðla að virkri þátttöku og vekja fólk til umhugsunar. Starfsemi þeirra markast af fagmennsku og fjölbreytni er höfð að leiðarljósi í verkefnavali. Þau leitast við að stuðla að jafnrétti og tryggja jafnt aðgengi allra að dagskrá sinni, óháð efnahag, uppruna eða bakgrunni fólks. Með verkefnum sínum veita þau innblástur, auka skilning og víðsýni.

Listasöfn eru hluti af grunnstoðum menningarlífs í landinu. Safnkostur, sýningar og viðburðir í listasöfnum geta verið mikilvægir aflvakar í lýðræðislegri umræðu og endurmati hugmynda í tengslum við málefni samtímans. Listasöfn styðja við listrænt frelsi og skapa vettvang fyrir ögrandi samtímalist. Þau hafa það frelsi sem þarf til að spyrja erfiðra spurninga. Hlutverk listasafna og annarra menningarstofnana fær aukið vægi þegar samfélagið stendur frammi fyrir stórum áskorunum, en listir og menning geta veitt mikilvæga sáluhjálp, stuðning og innblástur á óvissutímum.

Myndlist ásamt öðrum skapandi greinum er mikilvægt afl til framþróunar og margt bendir til þess að verðmætasköpun muni aukast enn frekar á þessum sviðum á næstu árum. Listasöfnin gegna þar mikilvægu hlutverki og kappkosta að leggja sín lóð á vogarskálarnar í þeirri þróun.

Sjálfbærni skal höfð að leiðarljósi í allri starfsemi listasafna. Aukin áhersla á sjálfbærni nær til innri og ytri þátta í starfi listasafna, s.s. í tengslum við sýningar og samstarf, lengd sýninga, sýningahald á fleiri stöðum og síðast en ekki síst þá þekkingu sem til er innan listasafnanna. Sjálfbærni nær einnig til þeirra viðfangsefna sem sýningar, viðburðir eða önnur verkefni listasafnanna fást við.

Stoðir stefnunnar

Til grundvallar samræmdri safnastefnu á sviði myndlistar eru myndlistarlög nr. 64/2012 og safnalög nr. 141/2011.

Mikilvægt er að stefnan kallist á við aðrar tengdar stefnur og áætlanir. Horft var til stefnumörkunar stjórnvalda á sviði menningar og einnig þeirra áherslna sem gerðar eru í fjármálaáætlun í tengslum við málaflokkinn.

Safnaráð vinnur um þessar mundir að samræmdri safnastefnu sem styður vel við þá stefnu sem hér er fjallað um. Að sama skapi er mikilvægt að samhljómur sé í stefnumörkun höfuðsafnanna á sínum sérsviðum og að þau — Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands — gangi í takt og að framtíðarsýn allra rími við stefnu stjórnvalda.

Aðrar samliggjandi stefnur

Í menningarstefnu stjórnvalda er horft til fjögurra meginþátta sem samræmast vel þessari stefnumörkun, en þeir eru: sköpun og þátttaka í menningarlífinu, gott aðgengi að listum og menningararfi, samvinna stjórnvalda við þá fjölmörgu sem starfa á sviði menningar, þátttaka barna og ungmenna í menningarlífinu.

Að sama skapi fellur menntastefna stjórnvalda vel að því sem hér er til umfjöllunar. Þar er lögð áhersla á að íslenskt menntakerfi verði í fremstu röð menntakerfa þeirra landa sem við berum okkur saman við. Til að bæta lífskjör enn frekar og auka útflutningstekjur landsins þarf að huga sérstaklega að verðmætasköpun byggðri á hugviti og verkþekkingu. Því er nauðsynlegt að efla menntakerfið. Menntakerfið þarf að skapa sterkan þekkingargrunn, vera sveigjanlegt og geta aðlagað sig tækniþróun á hverjum tíma.

Í nýsköpunarstefnu er lögð áhersla á það að Ísland nýti smæðina sem styrkleika og leggi áherslu á að vera vel tengt í alþjóðlegu umhverfi vísinda, nýsköpunar, menningar og athafnalífs.

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2021-2025 fjallar m.a. um það meginmarkmið stjórnvalda á sviði menningar og lista að jafna og bæta tækifæri til nýsköpunar í menningar- og listastarfsemi. Leggja skuli ríka áherslu á mikilvægi barnamenningar og aukið aðgengi barna og ungmenna að safnastarfi í þeirra þágu. Jafnframt skuli stuðla að góðu aðgengi og miðlun á menningu og listum. Þess er sérstaklega getið að með öflugu og samhæfðu safnastarfi og uppbyggingu nauðsynlegrar aðstöðu sé stefnt að því að almenningur hafi sífellt betri aðgang að menningar- og náttúruarfi þjóðarinnar.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðana

Íslensk stjórnvöld hafa samþykkt að vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og vinna skipulega að innleiðingu markmiðanna. Einn liður í slíkri innleiðingu er að tengja markmið ólíkra málaflokka við ákveðin heimsmarkmið. Þannig geta stjórnvöld gert grein fyrir því hvernig þau sjá fyrir sér að uppfylla markmiðin en einnig eykst aðgengi almennings að innri tengslum heimsmarkmiðanna og stefnumörkunar stjórnvalda. Öll heimsmarkmiðin ásamt umfjöllun má finna á vefnum www.heimsmarkmid.is.

Listasöfn geta stutt við heimsmarkmiðin með margvíslegum hætti, ekki síst í gegnum sýningar
og miðlun og með því að koma af stað eða taka þátt í umræðu um þau málefni sem þar er fjallað um. Í vinnu við samræmda safnastefnu á sviði myndlistar var horft til heimsmarkmiðanna og leitast við skoða og fjalla um einstök heimsmarkmið, s.s. menntun, nýsköpun, loftslagsmál og ekki síst sjálfbærni.

Eins og fram hefur komið verða unnar áhersluáætlanir til að ná þeim árangri sem stefnan boðar en jafnframt því er mikilvægt að horfa til heimsmarkmiðanna og tengja þau við einstakar áherslur.

Innleiðing

Listasafn Íslands ber ábyrgð á mótun og kynningu á samræmdri safnastefnu á sviði myndlistar í samræmi við safnalög nr. 141/2011 og myndlistarlög nr. 64/2012.

Stefnumarkmiðin voru kynnt á árlegum fundi höfuðsafna í október 2020. eftir að drög höfðu verið send safnstjórum viðurkenndra listasafna til yfirlestrar og athugasemdagerðar fyrr á árinu. Stefnan tekur gildi við lok árs 2020 að höfðu samráði við mennta- og menningarmálaráðherra.

Samræmdri safnastefnu á sviði myndlistar er ætlað að vera leiðarljós fyrir starfsemi listasafna í landinu. Listasöfn eru hvött til að móta eigin stefnu og setja sér markmið sem byggja á þessari sameiginlegu sýn. Hvert listasafn þarf svo að velja þær leiðir sem henta því umhverfi sem það starfar í og hefjast handa við að ná þeim markmiðum sem hér eru sett fram.

Í vinnu við gerð stefnunnar var kallað eftir skýrara leiðandi hlutverki Listasafns Íslands sem höfuðsafns á sviði myndlistar. Væntingar safna endurspegla ýmsar þarfir og óskir. Með formlegum samstarfsvettvangi gefst tækifæri til að formgera samband listasafna svo þau vinni saman að þeim hagsmunamálum sem eiga að vera í forgangi hverju sinni. Árlega gerir Listasafn Íslands samantekt á þessari vinnu, sem lýsir árangri og innleiðingu á komandi árum.

Stefna til framtíðar

Þetta er í fyrsta sinn sem samræmd safnastefna á sviði myndlistar er sett fram. Stefnunni er ætlað að veita listasöfnum stuðning og vera verkfæri í þeirra starfi.

Endurskoðun

Það er mikilvægt að stefnan sé í sífelldri þróun og endurskoðun. Hún skal taka mið af stefnumótun stjórnavalda hverju sinni, breytingum og þróun í alþjóðlegu umhverfi, nýjungum í tækni og öðru sem tengist starfsemi listasafna.

Þakkir

Stefna þessi byggir á samvinnu margra einstaklinga og er safnstjórum listasafnanna og starfsfólki þeirra sem tóku þátt í rýnifundum eða skiluðu inn efni færðar góðar þakkir. Eins er sérfræðingum menningarskrifstofu mennta- og menningarmálaráðuneytisins þakkað fyrir gagnlegar ábendingar og umræður við stýrihópinn. Áður en þessi vinna við gerð stefnunnar hófst lágu ókláruð eldri drög að samræmdri safnastefnu fyrir, sem starfsfólk Listasafns Íslands hafði unnið að um nokkurt skeið og nýttist sá efniviður vel. Jóhönnu Símonardóttur ráðgjafa hjá Sjá ehf. er þökkuð liðveislan í allri þessari vinnu og Helgu Óskarsdóttur þökkum við fyrir hönnun og vefsíðugerð.

Skilgreining á nokkrum hugtökum

 

Viðurkennd söfn

Viðurkennt safn er safn sem hefur farið í gegnum viðurkenningarferli safnaráðs. Slíkt safn þarf að uppfylla ákveðin skilyrði skv. 10. gr. safnalaga nr. 141/2011.

Sjá einnig: hér

Höfuðsöfn

Í safnalögum nr. 141/2011 er starfsemi höfuðsafna skilgreind með eftirfarandi hætti:

Höfuðsöfn eru þrjú: Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Þau eru öðrum söfnum til ráðgjafar, stuðla að samvinnu safna og samræmdri safnastefnu hvert á sínu sviði.

Höfuðsöfn skulu hafa forystu í málefnum safna á sínu sviði, stuðla að eflingu og samræmi í safnastarfi og leiða faglegt samstarf safna og annarra aðila.

Höfuðsöfn skulu leitast við að efla og auka þekkingu og færni starfsfólks safna.

Höfuðsöfn skulu annast kynningu á sérsviði sínu innan lands og utan.

Safnkostur höfuðsafna skal vera undirstaða fræðslu- og sýningarstarfs þeirra. Hann skal jafnframt vera aðgengilegur til rannsókna.

Söfnunarstefna

Skilgreind markmið safns til uppbyggingar safneignar ásamt lýsingu á helstu einkennum hennar. Í söfnunarstefnu getur einnig verið skilgreind áætlun um grisjun safnkosts, svokölluð grisjunaráætlun.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Markmið sem gilda á tímabilinu 2016—2030. Þau eru 17 talsins með 169 undirmarkmið og taka bæði til innanlandsmála sem og alþjóðasamstarfs. Þau mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, hinnar félagslegu og hinnar umhverfislegu. Þá fela þau einnig í sér fimm meginþemu sem eru: Mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Sjá vef um heimsmarkmiðin: www.heimsmarkmidin.is

Ítarefni/Heimildir:

Netkönnun vegna stefnu listasafna

Rýnifundir vegna stefnu listasafna

Safnaráð

Félag íslenskra safna- og safnmanna

Íslandsdeild ICOM

Safnalög

Myndlistarlög

Reglugerð um Listasafn Íslands (171/2014)

Lög um menningarminjar

Þjóðminjasafn Íslands, Safnastefna á sviði menningarminja, 2017

Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Menningarstefna, 2013

Ríkisendurskoðun, Íslensk muna- og minjasöfn. Meðferð og nýting á ríkisfé. Skýrsla til Alþingis. 2009

Handbók um varðveislu safnkosts, fyrra bindi (Þjóðminjasafn, önnur útg. 2019)

Handbók um varðveislu safnkosts, seinna bindi (Þjóðminjasafn, 2018)

Sarpur. Safnmunaskrár íslenskra safna

Saga listasafna á Íslandi, Sigurjón Baldur Hafsteinsson (ritstj.), Rannsóknasetur í safnafræðum við Háskóla Íslands, 2019.

Heimasíður listasafna (höfuðsafn og viðurkennd söfn)

Listasafn Íslands

Gerðarsafn  

Hafnarborg 

Hönnunarsafn Íslands

Listasafn ASÍ

Listasafnið á Akureyri 

Listasafn Árnesinga

Listasafn Einars Jónssonar

Listasafn Háskóla Íslands

Listasafn Reykjanesbæjar

Listasafn Reykjavíkur 

Nýlistasafnið

Safnasafnið